Við ætlum að smíða „design system“ — viltu vera memm?

Um fátt er meira rætt og ritað meðal sérfræðinga erlendis í stafrænum lausnum en Design System eða hönnunarkerfi*. Reykjavíkurborg skynjar kall tímans og hefur ákveðið að fara í þennan leiðangur. Að smíða eitt stykki. Og við** leitum að samstarfsaðila.

En hvað er Design System (DS)?

DS er samsafn endurnýtanlegra eininga sem byggja á skýrum stöðlum sem má raða saman til að smíða stafrænar lausnir. Með DS er hægt að staðla vinnubrögð, hraða framleiðsluferli, smíða brýr á milli teyma, fækka villum og auka gæði stafrænna verkefna.

Þörfin er sannarlega til staðar þar sem stafræn bylting og bylting í notendaupplifun (UX) er óumflýjanleg. Það þarf stöðugt að bregðast hraðar við, smíða stafrænar lausnir sem taka við af hliðrænum lausnum. Langur þróunar- og framleiðslutími veldur því að stundum fæðast lausnir nánast úreltar sem er dýrt spaug og til mikils að vinna að koma í veg fyrir.

Með risastórt fyrirtæki, á íslenskan mælikvarða, vex þörfin fyrir stafrænar lausnir hröðum skrefum. Borgin hefur brugðist við þessari þróun með margvíslegum hætti undanfarin ár meðal annars með stofnun Rafrænnar þjónustumiðstöðvar, verkefninu Snjallborgin og innleiðingu á nýrri þjónustustefnu sem byggir á hugmyndafræði „Design Thinking“ þar sem notandinn er ávallt í forgangi.

Stafræna umhverfi Reykjavíkurborgar er flókið. Borgin vinnur með fjölda eininga innan borgarinnar á stærsta vinnustað landsins. Einnig vinnur borgin með fjölda verktaka á hverjum tíma. Það mælir því flest með því að staðla og samræma vinnubrögð á þessu sviði til að búa til heildstæða og góða notendaupplifun sem og að auka hagræði í rekstri lausna sem geta skilað okkur verulegum ávinningi á komandi árum.

Megin ávinningur af DS er að:

  • Hönnun verður samhæfð
  • Þróun verður hraðari
  • Ítranir / breytingar verða hraðari
  • Nytsemi batnar
  • Aðgengismálin verða innbyggð í öll verkefni
  • Stöðug þróun hönnunar og lausna er tryggð
  • Til lengri tíma næst verulegur sparnaður

Hönnunartungumálið („design language“) er kjarninn í hönnunarkerfinu. Skilgreina þarf tilgang og stíla fyrir einingar eins og leturgerð, liti, hnappa, íkon, form, leitarglugga, töflur, villuskilaboð og hreyfingar. Ofan á þetta eru svo gerðar skýrar leiðbeiningar um tilgang og notkun ásamt kóða sem tryggir alltaf rétta virkni. Allt þetta er aðgengilegt þeim sem vinnur að lausnum.

Í undirbúningi verkefnisins höfum við skoðað fjölmörg hönnunarkerfi og aðferðafræðina á bak við þau, m.a. þessi:

BBC hafa gert skemmtilegt myndband sem útskýrir ágætlega tilganginnn með því að setja upp slíkt kerfi.

Viltu vera memm?

Við hjá Reykjavíkurborg erum langt komin með að skilgreina kröfulýsingu fyrir kerfið og leitum að samstarfsaðila til að vinna með okkur í þessu verkefni. Hefur þú reynslu af sambærilegu verkefni? Finnst þér þetta spennandi? Langar þig að vera memm?

Ef svo er sendu okkur línu á vefur@reykjavik.is eða með þeim hætti sem þér hentar..

Hlökkum til að heyra í þér.

Hreinn Hreinsson, borgarvefstjóri hreinn@reykjavik.is
Sigurjón Ólafsson, vefráðgjafi sigurjono@gmail.com

* Við erum ekki sáttir með að nefna Design System hönnunarkerfi á íslensku og köllum eftir betri þýðingu. Í greininni leyfum við okkur að nota heitið á ensku.

** Við kunnum ekki að setja inn grein á Medium sem tveir höfundar og þess vegna er þetta bara á nafni Hreins þó að við höfum skrifað þetta saman.

Vefstjóri og stafrænn verkamaður hjá Reykjavíkurborg

Vefstjóri og stafrænn verkamaður hjá Reykjavíkurborg