Getum við ekki sett þetta á forsíðuna?

Algengasta spurningin sem vefstjóri borgarinnar (Borgarvefstjóri) fær er þessi:

Getum við ekki sett þetta á forsíðuna svo allir sjái?

Ekki óeðlileg spurning í sjálfu sér enda mikill vilji víða í borgarkerfinu að koma upplýsingum sem best á framfæri. Flestir álykta sem svo að ef upplýsingar séu á forsíðu séu þær þar með meira áberandi en ella og því nær notendum og hann líklegri að þeir sjái þær. Ef vefstjóri myndi alltaf segja já væri forsíðan yfirfull af upplýsingum sem notendur myndu með engu móti geta unnið úr og því myndi góður vilji til að gera eitthvað áberandi leiða til hins gagnstæða. Notendur skanna vefinn í flýti og um leið og of mikið ber fyrir augu er líklegra að það mistakist að koma mikilvægum upplýsingum á framfæri. Þessi dásamlega þversögn er vel þekkt en með breyttri hegðun notenda er þetta ekki lengur stórkostlegt vandamál. Málið er nefnilega að forsíður eru víða og mikilvægi forsíðunnar á vefnum fer hratt minkandi, eða vaxandi, fer eftir því hvað átt er við með forsíðu.

Forsíða reykjavik.is

Vægi forsíðunnar á reykjavik.is hefur þróast með eftirfarandi hætti frá því herrans ári 2013. Hér er yfirlit yfir hlutfall notenda sem lenda á forsíðu þegar þeir koma inn á vef borgarinnar.

Mynd 1. Hlutfall notenda sem sér forsíðu reykjavik.is

Semsagt, í fyrra var forsíðan fyrsta síðan sem 28,56% notenda sáu en það sem af er ári er þessi tala 24,97%. Sem þýðir að 75,03% notenda sjá ekki forsíðuna þegar þeir koma inn á vefinn heldur einhverja aðra síðu, þeir rata inn á það efni sem þeir kjósa að skoða án þess að fara í gegnum forsíðuna.

Þetta kemur á óvart ekki satt? En hvað er í gangi og hvað þýðir þetta?

Upphafssíða mannkyns

Langstærsta skýringin er upphafssíða mannkyns; Google. Það er orðið inngróið í hegðun stórs hluta notenda að gúgla bara það sem þeir eru að leita að og smella svo á niðurstöðuna sem þeim þykir líklegust til að skila réttu svari. Google kortleggur svo þessa hegðun og verðlaunar þær síður sem svara raunverulegri þörf notenda og til þess nota þeir gríðarlega háþróaðar mælingar sem meta hverja einustu hreyfingu notandans á vefnum. Markmið notanda er að fá svar og markmið Google er að færa notanda svarið. Þess vegna fylgist Google með notanda eftir að hann smellir á leitarniðurstöðu og leggur mat á hvort leitin hafi skilað notanda raunverulegum árangri. Að þessu leyti fara hagsmunir beggja algerlega saman.

Frá 2012 höfum við markvisst unnið að því að uppfylla allar kröfur Google og þar með gert efnið á vefnum betra og aðgengilegra, en öfugt við það sem margir halda snýst mat Google mikið um efnisinnihald vefja en minna um tæknilega hluti. Þeir þurfa að vera í lagi vissulega en að því gefnu taka aðrir þættir yfir við mat á vefsíðum, innihaldið og framsetning þess. Margir vanmeta getu Google til að leggja efnislegt mat á vefi og gæði upplýsinga en það ætti enginn að gera því efnisskilningur þessarar ágætu „vélar“ er alveg „mindblowing“.

Í fyrra komu tæplega 46% notenda reykjavik.is í gegnum Google þ.e. slógu inn leitarorð á Google og smelltu á leitarniðurstöðu sem leiddi þá á reykjavik.is, þar sem þeir lenda á tiltekinni síðu. Ekki endilega á forsíðuna heldur á síðuna sem svarar spurningu notandans best, fyrsta síðan sem notandi sér á vefnum kallast lendingarsíða

Meira um tölfræðina í fyrra má lesa hér

Í þessu ljósi hefur orðið til frasi sem ég kem yfirleitt að í öllum samtölum við starfsfólk borgarinnar; „Hver einasta síða á vefnum er forsíða.“

Hljómar kannski skringilega en er hins vegar mjög nærri lagi því hvaða síða sem er getur verið fyrsta síðan, lendingarsíðan, sem notandi lendir á. Síður eins og Laus störf, sundlaugar, sorphirðudagatal og Borgarvefsjá eru til að mynda lendingarsíður þúsunda notenda.

Hvað þarf lendingarsíða að gera?

Lendingarsíða þarf að svara þeirri spurningu eða því erindi sem notandi er með í huga þegar hann kemur — svo einfalt er það. Ef hún gerir það ekki þarf hún að minsta kosti að beina notanda í rétta átt.

Utanum lendingarsíðu þarf svo að vera rammi sem gefur notanda möguleika á að sinna sínu næsta erindi eða leita frekari upplýsinga og þess vegna er t.d. haus og fótur sýnilegur á öllum síðum með öllum þeim möguleikum sem þar er boðið upp á.

Með þetta í huga erum við núna að móta betur helstu síður á vefnum og auka möguleika þeirra sem sinna upplýsingagjöf til að gera fjölbreyttari síður innan reykjavik.is í ljósi þess að ein framsetning á efni hentar alls ekki öllum og matreiða þarf upplýsingar með mismunandi þarfir notenda í huga.

Semsagt, forsíðan er vissulega ennþá mikilvægasta síða vefsins en málið er bara að forsíðan er hver einasta síða.

Gleðilega Góu

Vefstjóri og stafrænn verkamaður hjá Reykjavíkurborg

Vefstjóri og stafrænn verkamaður hjá Reykjavíkurborg